Samtök atvinnulífsins (SA) lögðu í fyrradag til að nýjar leiðir yrðu farnar í kjaraviðræðunum sem nú eru í hnút. Benda þau á að verkalýðshreyfingin komi að samningaborðinu með kröfur um tugprósenta launahækkanir í skammtímasamningi. Ef þær næðu fram að ganga myndi verðbólgan fara á flug á nýjan leik.

Kjarninn í tillögu SA er að hækka grunnlaun en á móti verði samningsbundnar álagsgreiðslur, eins og yfirvinna og vaktavinna, lækkaðar. "Uppstokkun launakerfa gæti orðið farvegur til að koma til móts við kröfur um betri framfærslumöguleika dagvinnulauna og styttri vinnutíma án þess að raska verðstöðugleika," segir meðal annars í tilkynningu frá SA.

Gylfi Arnbjörnsson, forseti Alþýðusambands Íslands (ASÍ) segist ekki sjá að þessar breytingar verði gerðar í einu vetfangi. Þetta máls sé flókið en sjálfsagt sé að setjast niður og skoða þetta. Spurður hvort það sé einhver sáttatónn í þessu svarar Gylfi: „Já, já, í ljósi þess að samtökin voru með yfirlýsingar í janúar um það kæmi ekki til greina að hækka lægstu laun þá er þetta greinilega breyting á þeirri stefnu."

Starfsgreinasamband Íslands, sem er eitt aðildarfélaga ASÍ, hefur boðað verkfall frá og með 10. apríl. Gylfi segir að þar sek Flóinn, verslunarmenn eða iðnaðarmenn séu ekki búnir að vísa sínum deilum til sáttasemjara séu þau ekki farin að undirbúa verkföll.

„Miðað við viðbrögð atvinnurekenda í þessum viðræðum tel ég að það sé bara tímaspursmál hvenær það gerist," segir Gylfi og bætir því við að staðan í kjaramálunum núna sé flóknari en hann hafi séð um langt skeið.

Stjórnvöld enginn sáttasemjari

„Við þurfum líklega að fara aftur til 1984-1986 til að finna svipaðar aðstæður. Það sem verður flóknasta viðfangsefni okkar á vinnumarkaðnum á næstu árum verður hvernig við komumst í veg fyrir það að pólitísk ólga og óstöðugleiki smiti út á vinnumarkaðinn. Það er svolítið að gerast núna og byrjað að sumu leyti í tíð síðustu ríkisstjórnar. Þá gerðist það ítrekað að loforð stjórnvalda  reyndust innihaldslaus og nefni ég stöðugleikasáttsmálann sem gerður var í júní 2009. Hann endaði með því að bæði ASÍ og SA sögðu honum upp. Þar sökuðum við ríkisstjórnina um að hafa ekki efnt sín fyrirheit.

Framganga núverandi ríkisstjórnar er litlu betri. Hún hefur til dæmis skert réttindi sem við höfðum áður samið um og samið við aðra hópa á allt öðrum forsendum en gert var á almennum vinnumarkaði. Þetta gerir það það að verkum að það er mjög erfitt að vinna með hugtökin stöðugleiki og sátt á vinnumarkaði þegar samskipti við stjórnvöld eru öll í einhverjum deilum.

Átakafarvegur stjórnmálanna er ekkert til hliðar við kjaramálin. Til þess að ná hér einhverri sátt og stöðugleika, þá er það víðtækara hugtak en svo að það verði bara gert á vinnumarkaðnum. Við höfum ekki lagt neinar kröfur á stjórnvöld einfaldlega vegna þess að menn telja að það hafi engan tilgang að óska eftir aðkomu þeirra á sama tíma þau hafa ekki burði til að efna það sem áður hefur verið samið um. Menn hafa ekki trú á því. Þetta er í fyrsta skipti sem ég hef komið að kjaramálum þar sem menn hafa ekki gert kröfu á stjórnvöld. Við sjáum ekki hvernig þau eiga að stíga inn í þessar deilur sem einhver sáttasemjari."

Fjallað er ítarlega um yfirvofandi verkföll í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .