*

mánudagur, 2. ágúst 2021
Innlent 8. febrúar 2006 12:03

Pólska félagið P4 gerir rúmlega 11 milljarða samning við kínverskt fyrirtæki

Novator á 70% hlut í pólska farsímafélaginu

Ritstjórn

Pólska farsímafélagið P4, sem er í eigu Novators og pólska símafélagsins Netia, hefur gert 150 milljón evra (11,3 milljarðar króna), samning við kínverska tæknifyrirtækið Huawei Technologies.

P4 greindi frá þessu í dag. Novator, fjárfestingafélag Björgólfs Thors Björgófssonar, á 70% hlut í P4 en Netia 30%. Novator á 23% hlut í Netia, og ætlar sér að eignast 33% mínus einn hlut í félaginu.

Huawei mun sjá um uppbyggingu þriðju kynslóðar farsímakerfis P4, en félagið mun hefja starfssemi í lok árs og markmiðið er að ná 40% markaðshlutdeild á næstu tíu árum. Helstu keppinautar P4, einnig nefnt Netia Mobile, eru Pokomtel, sem er að hluta til í eigu farssímarisans Vodafone, PTC, sem er að hluta til í eigu Deutsche Telekom, og Centertel ,sem er að hluta til í eigu France Telecom og franska fjarskiptafyrirtækisins Vivendi.

Kínverska félagið félagið hefur verið að horfa til að auka starfssemi sína utan Kína og gerði nýlega samning við portúgalska símafélagið Optimus um að endurnýja þriðju kynslóðar kerfi félagsins. P4 sóttu um leyfi frá pólskum yfirvöldum um þriðju kynslóðar farsímaleyfi í ágúst í fyrra.