Pólsk stjórnvöld undirbúa nú björgunarpakka til handa fjármálageiranum þar í landi upp á um 31,4 milljarða Bandaríkjadali.

Að sögn BBC er fjárveitingu stjórnvalda ætlað að blása lífi í fjármálamarkaði á ný auk þess að treysta atvinnulífið.

Þannig verður mestur hluti fjármagnsins notaður til að tryggja bankainnistæður, veita lán til atvinnulífsins auk þess að fjárfesta í verkefnum sem miða að endurnýjanlegri orkunotkun.

Gert er ráð fyrir 3,7% samdrætti í pólsku hagkerfi á næsta ári og segir viðmælandi BBC að pólskum yfirvöldum sé ekki stætt annað en að blása lífi í hagkerfið með innspýtingu fjármagns.

„Pólland fer ekki varhluta af þeirri kreppu sem nú ríkir í alþjóðahagkerfinu,“ sagði Donald Tusk, forsætisráðherra Póllands þegar aðgerðir ríkisstjórnarinnar voru kynntar.

„Þetta er aðgerð sem mun koma jafnvægi á hagkerfið auk þess að flýta fyrir frekari þróun þess,“ sagði Tusk og minnti á að hagkerfi Póllands væri enn í mikilli þróun.

Þá kom fram í máli Tusk að Pólverjar stefni enn að því að taka upp evru sem gjaldmiðil. Tusk sagði einnig að sameiginlegur gjaldmiðill hefði komið sér betur í núverandi krísu.