Richard Portes, prófessor við London Business School, segir skuldatryggingamarkaðinn ráðast af öllu öðru en rökrænum ástæðum. Skuldatryggingaálag Kaupþings fór í gær yfir 5.000 punkta: „Þessi tala skiptir engu máli núna, sérstaklega í ljósi þess að talsmenn bankans hafa sagt að þeir fjármagni sig ekki á heildsölumarkaði þessa dagana."

„Álög fjárfestingabankanna Goldman Sachs og Morgan Stanley fóru á tímabili yfir 1.000 punkta, enginn hélt því fram að þeir bankar stefndu í gjaldþrot," segir hann.

„Þessi markaður hefur mjög skerta verðmyndun. Þetta er vandamál í kerfinu, og þarfnast endurskoðunar," segir Portes, og bendir í framhjáhlaupi á það að Warren Buffet hafi sagt fyrir nokkrum árum að þessi markaður væri skaðræðisvél.