Ríkisstjórn Portúgals hefur lagt það til að ellilífeyrisaldurinn verði hækkaður úr 65 árum í 66 ár og að opinberum starfsmönnum verði gert að vinna 40 tíma vinnuviku í stað 35 tíma viku eins og nú. Þá stendur til að segja upp 30.000 opinberum starfsmönnum.

Þessar aðgerðir eiga að spara portúgalska ríkinu um 4,8 milljarða evra á næstu þremur árum, að því er segir í frétt BBC. Pedro Coelho, forsætisráðherra Portúgals, segir að eftir þessar tillögur stjórnarinnar geti ESB ekki efast um einurð Portúgals og vilja til að taka á vanda ríkissjóðs.

Árið 2011 fékk Portúgal 78 milljarða evru fjárhagsaðstoð frá ESB og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Atvinnuleysi er enn mikið eða um 18% og er búist við því að portúgalska hagkerfið skreppi saman þriðja árið í röð í ár.

Í síðasta mánuði ógilti stjórnlagadómstóll Portúgals lög sem áttu að spara ríkissjóði einn milljarð evra, m.a. með því að hætta greiðslum á hátíðarbónusum til opinberra starfsmanna.