Íslandspóstur ohf. mun hætta að selja gjafavörur, sælgæti, gos, ritföng og aðra smávöru á pósthúsum sínum þann 1. febrúar næstkomandi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Póstinum.

„Þegar Pósturinn byrjaði á vörusölu á sínum tíma snerist hugmyndafræðin um það að viðskiptavinir gætu fyllt upp í næsta kíló en verðskrá póstfyrirtækja í pakkasendingum er byggð upp á kílóverðum. Það var því talið vera viðbótarþjónusta við viðskiptavini að þeir gætu keypt sælgæti eða aðrar tækifærisvörur til að geta nýtt sendinguna að fullu,“ er haft eftir forstjóranum Birgi Jónssyni í tilkynningunni.

Vörusala Póstsins hafði legið undir gagnrýni enda þótti mörgum undarlegt að fyrirtæki í ríkiseigu stundaði sölu á geisladiskum, ritföngum og sælgæti. Fyrrverandi forstjóri, Ingimundur Sigurpálsson, hafði látið hafa eftir sér að salan væri vel séð hjá viðskiptavinum og að hún nýttist fyrirtækinu vel.

„Nú höfum við hins vegar ákveðið að hætta vörusölu en ástæðurnar fyrir því eru tvær. Sú fyrri er sú að það er töluverð hagræðing fólgin í því að hætta vörusölu en mikil umsýsla og utanumhald er í kringum þessar vörur. Önnur ástæðan og í raun sú stærsta er hins vegar sú að vörusalan tengist einfaldlega ekki kjarnastarfsemi fyrirtækisins, við höfum legið undir mikilli gagnrýni vegna þessarar starfsemi og sjáum engan ábata í að vera í henni til framtíðar,“ segir Birgir.

Til betri vegar horfir í rekstri Póstsins með komu Birgis en í upphafi árs hefði fyrirtækið farið í þrot hefði aukið fjármagn til rekstrarins ekki komið frá eiganda þess.