*

þriðjudagur, 25. janúar 2022
Innlent 3. maí 2021 10:29

Pósturinn knésetji tvö einkafyrirtæki

Minnihluti stjórnar Íslandspósts var ekki hrifinn af ákvörðun félagsins um að fella niður tiltekna afslætti og töldu hana vafasama.

Jóhann Óli Eiðsson
Stjórn Íslandspósts í upphafi árs.
Íslandspóstur

Minnihluti stjórnar Íslandspósts ohf. (ÍSP) taldi undirbúning fyrir niðurfellingu viðbótarafslátta magnsendinga vera ófullnægjandi og því rétt að hafna því að hún tæki gildi. Þetta kemur fram í fundargerð stjórnar Póstsins frá því í upphafi árs.

Umrædd breyting var lögð til af hálfu Póstsins síðasta vor en Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) ákvað að fresta gildistöku hennar þar sem stofnunin taldi sig ekki geta yfirfarið lögmæti hennar fyrr en undir lok síðasta árs. Afslátturinn hefur verið veittur söfnunaraðilum sem safna pósti frá stórnotendum og póstleggja þær saman. Tvö fyrirtæki hafa sinnt slíkri starfsemi, Póstmarkaðurinn og Burðargjöld. Ákvörðunin, sem fékk grænt ljós undir lok árs, fer langleiðina með að kippa rekstrargrundvelli undan fótum þeirra.

„Ég sit hjá þar sem undirbúningur er ekki nægur til að taka þessa ákvörðun. Nauðsynlegt hefði verið að skoða allt afsláttar kerfið hjá okkur í heild áður en þessi ákvörðun er tekin þar sem þetta eru bara örlítill hluti af þeim miklu afsláttum sem við veitum,“ segir í bókun Eiríks H. Haukssonar, fulltrúa Framsóknarflokksins í stjórninni, en hann sat hjá.

Slæmt fyrir ímynd félagsins

Thomas Möller, þáverandi fulltrúi Viðreisnar, greiddi atkvæði gegn tillögunni. Thomasi var ekki kjörinn í stjórn félagsins að nýju á síðasta aðalfundi, sem fram fór í vor, en í hans stað tók starfsmaður fjármálaráðuneytisins sæti í stjórninni. Viðskiptablaðið hefur heimildir fyrir því að vilji fjármálaráðherra hafi staðið til að skipta Eiríki einnig úr stjórn en stjórnarsamstarfið hafi staðið því í vegi.

Í bókun Thomasar kemur fram að umrædd ákvörðun feli í sér gjaldskrárbreytingu og því hefði, samkvæmt samþykktum ÍSKP, þurft að taka ákvörðunina á vettvangi stjórnar. Það hafi aftur á móti aldrei verið gert. Þá væri breytingin til þess fallin að flýta fyrir fækkun bréfsendinga og þar með valda ÍSP fjárhagslegum skaða. Rétt er að geta þess að breytingin gæti í einhverjum tilfellum hækkað kostnað fyrirtækja af bréfasendingum um allt að 70%.

„Ímyndarlega séð er það mjög slæmt að mínu mati þegar ríkisfyrirtæki eins og ÍSP sem er að óska eftir rekstrarstyrkjum frá skattgreiðendum, knésetur tvö einkarekin samstarfsfyrirtæki sem eru að spara félaginu vinnu og kostnað. ÍSP þarf að gæta mikillar varúðar þegar það tekur ákvörðun sem hefur svo afdrifarík áhrif á samkeppni og einkarekstur í landinu,“ segir í bókun Thomasar.

Kærðu alþjónustuákvörðun PFS

Þá segir Thomas að vafamál sé hvort breytingin standist lög. Gildandi gjaldskrá hafi verið byggð á ítarlegri greiningu PFS en engir útreikningar hafi verið lagðir til grundvallar við töku ákvörðunarinnar. Þá hafi legið fyrir umsögn Samkeppniseftirlitsins þar sem fram kom að niðurfelling afsláttanna kynni að fela í sér misnotkun á markaðsráðandi stöðu.

„Ég tel að þeirri spurningu þurfi að svara hvort sá sparnaður sem verður fyrir ÍSP af niðurfellingunni, nái hún fram að ganga, verði að skila til viðskiptavina ÍSP. Annars væri líklega um yfirverðlagningu að ræða að mínu mati. Ný gjaldskrá sem tekur mið af þessu hefur ekki verið kynnt í stjórninni. Ég legg til að heildarendurskoðun á fyrirkomulagi magnafslátta og annarra afsláttarkerfa ÍSP verði hraðað,“ segir Thomas.

Meirihluti stjórnar, sem samanstóð af fulltrúum Sjálfstæðisflokksins, Vinstri grænna og Flokks fólksins bókaði á móti að ÍSP hefði um árabil lagt til að viðbótarafslátturinn yrði felldur niður og að nú hefði PFS loksins fallist á það enda væru ekki „forsendur“ fyrir slíkum afsláttum.

Á sama fundi, sem fram fór um miðjan janúar, var samþykkt af hálfu stjórnar að kæra ákvörðun PFS um að útnefna félagið alþjónustuveitanda á sviði póstþjónustu. Samkvæmt ákvörðun PFS fékk Pósturinn 509 milljónir króna úr ríkissjóði fyrir að sinna alþjónustunni. Pósturinn hefur hug á að semja frekar um þjónustuna í stað þess að lenda í útnefningu.

Stikkorð: Íslandspóstur