Lyst ehf., sem er rekstraraðili Metro hamborgarastaðanna, hefur samið við Prentmet um framleiðslu umbúða fyrir alla veitingastaði Metro. Sem kunnugt er feta þeir í fótspor hins gamalgróna MacDonald´s sem horfinn er frá Íslandi.

Um er að ræða framleiðslu á öllum umbúðum fyrir Metro ásamt öðru prentverki. Til þess að geta sinnt þörfum Metro hefur Prentmet keypt nýja sérhæfða vél til framleiðslu umbúðanna. Vélin er sú fyrsta sinnar tegundar á Íslandi og býður Prentmet þannig upp á nýjar lausnir í framleiðslu umbúða fyrir hvers kyns iðnað og matvælaframleiðslu.

Guðmundur Ragnar Guðmundsson og Ingibjörg Steinunn Ingjaldsdóttir eiga og reka Prentmet. Ingibjörg, sem er framkvæmdastjóri markaðs- og starfsmannasviðs, segir að það sé ánægjulegt eftir að hafa þurft að takast á við samdrátt í kjölfar hruns bankanna sem voru stórir viðskiptavinir fyrirtækisins, þá sé nú verið að sækja fram í umbúðaprentun. Telur hún mikla möguleika á því sviði.

Jón Garðar Ögmundsson eigandi Lystar ehf., segist afar ánægður með þau jákvæðu viðbrögð sem starfsfólk Prentmets sýndi verkefninu. Segir hann Prentmet og Metro eiga þrennt sameiginlegt, en það er hraði, gæði og þjónusta.