vindmyllur
vindmyllur
Filippus prins, maður Elísabetar Englandsdrottningar, segir vindorkuver á landi eyðileggja sveitir landsins, sjónmengnun sé af þeim og þær virki aldrei eins og vonir standi til. Vindorkuver samanstendur af fjölda geysistórra vindmylla. Þau má finna víða í Bretlandi. Sambærilegt vindorkuver í eigu Svía er á Eyrarsundi suðaustur af Eyrarsundsbrúnni á milli Svíþjóðar og Danmerkur.

Þetta hefur breska dagblaðið Telegraph í gær eftir Esbjorn Wilmar, forstjóra Infinergy í Bretlandi, dótturfélags evrópsk fyrirtækis sem á og rekur vindmyllur í nokkrum Evrópulöndum. Wilmar ræddi við Filippus á dögunum og greindi Telegraph frá efni samtals þeirra. Konungshöllin hefur ekki viljað tjá sig um efni samtalsins þar sem um tveggja manna tal var að ræða.

Fram kom á haustfundi Landsvirkjunar í vikunni að vindmyllur geti verið hagkvæmur kostur víða hér á landi. Hér séu aðstæður góðar. Í undirbúningi sé að reisa eina til tvær 45 metra háar vindmyllur á milli Búrfellsvirkjunar og Sultartangavirkjunar.

Eftir því sem Telepgraph segir þá bera viðhorf Filippusar þess merki að hann verji sjónarmið þeirra hagsmunahópa sem andsnúinn hafa verið vindmyllum í Bretlandi sem valkosti í raforkumálum. Wilmar segir prinsinn hafa sagt rekstur vindmylla ganga á niðurgreiðslum, í raun til háborinnar skammar og  valda því að raforkuverð hafi hækkað.

Feðgarnir Filippus og Karl Bretaprins eru sagðir hafa svipuð viðhorf til vindmylla en hvorugur þeirra vill að vindmyllur verði reistar á landareign þeirra, að sögn blaðsins.

"Ég var mjög undrandi á því hvað hann var opinskár," hefur Telegraph eftir Wilmar.

Í Bretlandi eru um 3.421 vindmylla, þar af 2.941 á landi. Áætlað er að vindorka verði nýtt í meiri mæli í Bretlandi en áður og verði 4.500 vindmyllur reistar í því skyni til viðbótar.