Rússneska ríkið hefur fest kaup á tveimur lúxusflugvélum sem Vladimír Pútín forseti mun hafa til sinna einkanota. Annars vegar er um að ræða Ilyushin 96-300 vél, sem mun kosta um 3,75 milljarða rúbla, og hins vegar Ilyushin 96-300-PU(M1), sem mun kosta um 5,2 milljarða rúbla. Í íslenskum krónum nemur kostnaður ríkisins vegna vélanna tveggja um 23 milljörðum króna.

Myndir af innra byrði vélanna láku á netið í lok síðasta mánaðar, en bloggari sem gengur undir nafninu Kungurov, segist hafa fengið þær frá heimildarmanni í rússneska varnarmálaráðuneytinu.

„Hinn sjálfskipaði keisari okkar hefur ákveðið að gefa sjálfum sér gjöf í tilefni af því að fimmtán ár eru liðin frá því að hann tók krúnuna,“ sagði í bloggfærslu Kungurov.

Á myndunum sést að hvergi hefur verið til sparað til að gera vélarnar eins glæsilegar og þægilegar fyrir forsetann og unnt hefur verið.