Vladimir Pútín, forseti Rússlands var í viðtali við þýska blaðið Bild þar sem hann var harðorður gagnvart NATO og Bandaríkjunum.

Pútin sagði að eftir fall Sovíetríkjanna hafi vestrið og Rússland aldrei náð að byggja upp traust sín á milli og að ríkin misskilji hvort annað í sífellu.

„Berlínarmúrinn féll fyrir 25 árum en þá voru í staðinn settir upp ósýnilegir múrar í Austur-Evrópu. Þetta leiddi til gagnkvæms misskilnings og ásökunum. Þetta eru orsök allra vandamála milli landanna síðan þá.“

Pútin sagði að NATO og Bandaríkin hafi viljað fullnaðarsigur yfir Sovíetríkjunum og að þeir hafi viljað sitja einir að Evrópu. Þetta séu orsök spennu í samskiptum ríkjanna.

Pútin sagði einnig að efnahagsþvinganir sem beittar hefðu verið gegn landinu væru heimskulegar og að þær hefðu skaðað möguleika Rússlands á fjármálamörkuðum. Hann tók þó einnig fram að helsta ástæða efnahagserfileika Rússlands væri mikil lækkun heimsmarkaðsverðs á olíu.