Endurskoðunarfyrirtækið PricewaterhouseCoopers hafnar þeim ályktunum sem koma fram í bréfi skilanefndar og slitastjórnar Landsbankans og fullyrðingum þess efnis að PwC hafi brugðist starfsskyldum sínum í vinnu sinni fyrir bankann. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá félaginu.

Slitastjórn og skilanefnd Landsbankans sögðu frá því á kröfuhafafundi í dag PwC hafi verið sent bréf þar sem félaginu er tilkynnt um ætlaða bótaskyldu vegna vanrækslu við endurskoðun á ársreikningi bankans fyrir árið 2007 og árshlutareikning hans árið 2008. Samkvæmt talsmönnum slitastjórnar og skilanefndar bendir um margt til þess að eigið fé bankans hafi verið minna en upp var gefið og jafnvel undir löglegum mörkum.

Fréttatilkynning PricewaterhouseCoopers:

Ályktunum slitastjórnar og skilanefndar Landsbankans vísað á bug

PricewaterhouseCoopers (PwC) hefur borist bréf frá slitastjórn og skilanefnd Landsbankans þar sem settar eru fram ályktanir um skaðabótaskylda háttsemi vegna endurskoðunar á ársreikningi Landsbankans 2007 og könnunar á árshlutareikningum bankans á árinu 2008. Engar fjárkröfur eru gerðar á hendur PwC í bréfinu.

PwC hafnar alfarið þeim ályktunum sem fram koma í bréfinu og þeim staðhæfingum sem hafðar hafa verið eftir fulltrúum slitastjórnar í fjölmiðlum í dag þess efnis að PwC hafi brugðist starfsskyldum sínum í vinnu sinni fyrir Landsbankann.

Hlutverk PwC sem endurskoðenda bankans var að láta í té álit á ársreikningum og ályktanir um árshlutauppgjör. Í því fólst umsögn um það hvort reikningsskilin, sem unnin voru og lögð fram á ábyrgð stjórnenda bankans, hafi verið í samræmi við lög og alþjóðlegar reikningsskilareglur. Niðurstöður PwC tóku mið af þeim upplýsingum sem endurskoðendur PwC höfðu aðgang að á þeim tíma þegar vinna þeirra fór fram.

Endurskoðendur PwC komu ekki að gerð uppgjöra eða ákvarðanatöku í Landsbankanum.