PricewaterhouseCoopers ehf. hefur verið sýknað af 15 milljóna kröfu Ívars Ingimarssonar fyrrum landsliðsmanns í knattspyrnu og eiganda Ferðaþjónustunnar Óseyri ehf. Þetta kemur fram í dómi Héraðsdóms .

Málsatvik eru þau að Ívar á að hafa fengið sent skjal frá fyrirtækinu Scanco árið 2013 þar sem skorað hafi verið á hann að kaupa í fyrirtækinu og hafi skjalið verið kynnt sen hlutlaust verðmat. Í skjalinu kom meðal annars fram að gífurlegur vöxtur yrði á veltu Scanco ehf. á næstu árum og að rekstrartekjur félagsins myndu aukast úr áætluðum 58 milljónum króna á árinu 2013 í áætlaðar 828 milljónir á árinu 2016. Virði rekstrar hefði verið metið á tæplega 73 milljónir króna og skuldir sagðar vera 12,5 milljónir króna. Virði eigin fjár hefði verið talið nema ríflega 60 milljónum króna en að teknu tilliti til seljanleikaafsláttar hefði virði eiginfjár verið metið á ríflega 51 milljón króna.

Ívar hafi því tekið tilboðinu á grundvelli skjalsins sem hann hafi talið vera hlutlaust verðmat. Umrætt verðmat var unnið af Scanco ehf. í samstarfi við Pricewaterhouse Coopers.

Að sögn PWC var um óformlegt verðmat að ræða og fyrirvarar um áreiðanleika hafi verið gerðir. Þá segir fyrirtækið einnig að ekkert samningssamband hafi verið til staðar milli stefnanda og sefnda. Stefndi kannast ekki við það skjal sem stefnandi fullyrðir að stafi frá honum þar sem enginn maður sem starfar eða hafi starfað hjá stefnda kannist við að hafa látið slíkt skjal frá sér. Þá sé skjalið ekki finnanlegt í tölvukerfi fyrirtækisins.

Niðurstaða dómsins var sú að PWC var sýknað af kröfu stefnanda og var honum gert að greiða allan málskostnað sem var 1,8 milljónir króna auk virðisaukaskatts.