Landsvirkjun vinnur þessa dagana að því að kanna hug landsmanna til lagningar sæstrengs til Bretlands og hefur Gallup verið að hringja í fólk og spurt út í hug þess til verkefnisins. Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, sagði í umræðum á Alþingi í dag um sæstrenginn að hún hafi lent í úrtaki Gallup og hún spurð út í viðhorf sitt til sæstrengsins. Hún gaf ekkert upp um svar sitt í könnuninni í umræðunum á Alþingi.

„Ég sagðist vinna í stjórnsýslunni,“ sagði Ragnheiður Elín um svar sitt við spurningunni um það hvað hún vinni við.

Ragnheiður sagði sæstreng til Bretlands geta haft víðtæk áhrif á íslenskt efnahagslíf. Á sama tíma sé verkið umfangsmikið og gífurlega kostnaðarsamt en verðmiðinn liggur á milli tæpra 290 og rúmra 500 milljarða íslenskra króna.