Ráðist var á Zong Qinghou, stofnanda og stjórnarformann kínverska drykkjavörufyrirtækisins Hangzhou Wahaha Group, á föstudag í síðustu viku. Qinghou er 67 ára og er auður hans metinn á jafnvirði 115 milljarða júana, jafnvirði tæpra 2.300 milljarða íslenskra króna. Maðurinn sem réðst á Qinghou er sagður hafa brotið fjóra fingur á annarri hönd hans.

Breska dagblaðið Telegraph hefur upp úr kínverskum fjölmiðlum að sá sem réðst á auðmanninn kínverska sé 49 ára farandverkamaður. Sá leitaði á náðir auðmannsins eftir að hann sá þann fyrrnefnda í sjónvarpi hjálpa fátækum verkamönnum. Zong Qinghou neitaði manninum hins vegar um vinnu. Það mun svo hafa leitt til þess að farandverkamaðurinn réðst á drykkjavöruframleiðandann.

Telegraph segir Zong Qinghou oft slá á létta strengi þegar hann er spurður um áhugamálin og segi hann einu tómstundir sínar felast í því að drekka te og reykja sígarettur.