Leiðtogar Evrópusambandsins hafa lýst yfir miklum áhyggjum vegna framferðis Rússa í Úkraínu. Leiðtogarnir funda í Brussel í dag til að ræða viðbrögð, og möguleika á hertum refsiaðgerðum gegn Rússum, vegna ástandsins.

Að loknum ráðherrafundi sem fram fór í Mílanó í dag skoraði Catherine Ashton, yfirmaður utanríkismála ESB, á rússnesk yfirvöld að draga herlið sitt frá Úkraínu, að því er fram kemur á vef BBC.

Rússar neita hins vegar að rússneskar hersveitir styðji við aðskilnaðarsinna í austurhluta Úkraínu.

Í gær lækkaði rússneski gjaldmiðillinn, rúblan, niður í 37,03 á móti Bandaríkjadal, vegna ótta fjárfesta við frekari refsiaðgerðir gagnvart landinu. Það er mesta veiking gjaldmiðilsins frá árinu 1998.