„Það eru mikil samlegðaráhrif hjá okkur í kaupum á rekstrinum,“ segir Óskar Sigvaldason, framkvæmdastjóri Borgarverks í Borgarnesi. Um mánaðamótin gengu í gegn kaup Borgarverks á jarðvinnu- og klæðningarhluta Ræktunarsambands Flóa og Skeiða. Hinn helminginn af rekstrinum, jarðborunarhlutann, keypti fyrirtæki í eigu Jóhanns Magnúsar Ólafssonar, sem rekur Viðskiptahúsið í Reykjavík.

Viðskiptahúsið er skilgreint sem eignamiðlun fyrir fyrirtæki og fjárfesta, sem sérhæfir sig í ráðgjöf og miðlun á fyrirtækjum, skipum og veiðiheimildum.

Ræktunarsambandinu hefur í kjölfar kaupanna verið skipt upp í tvær einingar. Formleg yfirtaka kaupenda hefur ekki farið fram. Stefnt er að því að báðir kaupendur gangi frá þeim fljótlega.

Óskar leggur áherslu á að miklir hagræðingarmöguleikar felist í kaupunum, ekki síst fyrir þær sakir að Borgarverk og sá hluti Ræktunarsambands Flóa og Skeiða sinni álíka verkum. Hann tekur fram að enginn missi vinnuna í kjölfar kaupanna og verði rekstrinum haldið áfram á Selfossi.