Útgefnum bókatitlum hefur fjölgað umtalsvert á þessu ári og voru alls 985 skráðir titlar í Bókatíðindum ársins, samanborið við 861 árið áður. Um er að ræða 14% aukningu á milli ára og 24% aukningu frá árinu 2018, en í ársbyrjun 2019 var stuðningur við bókaútgáfu á íslensku sem heimilar endurgreiðslu 25% beins útgáfukostnaðar festur í lög. Stuðningurinn nær til prentunar, hönnunar, auglýsinga, höfundarlauna og ritstjórnar útgefinna bóka og nemur rúmlega 361 milljón króna það sem af er ári.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, þáverandi mennta- og menningarmálaráðherra og núverandi ferðamála-, viðskipta- og menningarmálaráðherra, átti frumkvæði að stuðningnum með það að markmiði að efla bókaútgáfu á íslensku.

„Markmiðið var að auka útgáfu íslenskra bóka og að auka fjölbreytileika í útgáfunni. Undirmarkmiðið var að fjölga barna- og ungmennabókmenntum, vegna fækkunar og erfiðleika í bókaútgáfu var þörf á endurnýjun til að koma í veg fyrir að skortur á fjölbreyttu úrvali hefði neikvæð áhrif á lestur barna og lestur yfir höfuð," segir Lilja.

Samkvæmt útgáfutölunum er stór hluti fjölgunarinnar drifinn áfram af raf- og hljóðbókum. Þeim fjölgaði um tæp 50% á þessu ári og var hlutdeild þeirra í heildarfjölguninni um 80%. Að miklu leyti er um að ræða endurútgáfu á eldri titlum á nýju formi, en Lilja segir slíka útgáfu samræmast markmiðum stuðningskerfisins.

„Það samræmist markmiðinu að því leytinu til að við fáum nýjan hóp af lesendum, því þetta form var ekki til áður. Við sjáum varðandi hljóðbækurnar að Storytel hefur mjög marga áskrifendur og þetta er hópur sem var ekki að lesa áður. Þannig erum við að fjölga titlum á nýju formi þótt um endurútgáfu sé að ræða," segir Lilja.

Fjallað er um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .

Bókatíðindi
Bókatíðindi