*

miðvikudagur, 12. maí 2021
Innlent 13. apríl 2021 09:22

Rafnar færir út kvíarnar í Grikklandi

Rafnar ehf. gera sérleyfissamning um framleiðslu 8,5 metra báta félagsins í Grikklandi sem kosta 55-70 milljónir króna hver.

Ritstjórn
8,5 metra bátur Rafnars.
Aðsend mynd

Rafnar ehf., félag Össurar Kristinssonar, hefur gert sérleyfissamning við Rafnar Maritime í Grikklandi um framleiðslu á 8,5 metra bátum fyrirtækisins. Hver bátur kostar um 55 til 70 milljónir króna.

Rafnar ehf., hefur farið þá leið að gera sérleyfissamninga við erlenda framleiðendur, sem starfa þá undir nafninu Rafnar Maritime, þar á meðal í Grikklandi.

Samstarfsaðili Rafnars í Grikklandi hóf smíði á 11 metra bátum fyrir um ári síðan, og hafa meðal annars selt 15 báta til grísku strandgæslunnar sem hyggst bæta við fleiri bátum sem verða afhentir á þessu ári og fram á mitt næsta ár.

Í tilkynningu frá Rafnari er bent á að bátarnir séu að mestu hannaðir og sérsmíðaðir eftir kröfum viðskiptavina. Bátarnir eigi þó allir sameiginlegt að vera byggðir á ÖK Hull skrokknum, sem hannaður er af Össuri Kristinssyni, stofnanda og eiganda fyrirtækisins. Kostur hönnunarinnar er sagður vera að það dragi úr höggum sem hafi verið viðvarandi vandamál hjá byggja á hefðbundnara skrokklagi. Þannig fari það betur með áhafnir bátanna. 

8,5 metra báturinn var hannaður og smíðaður í samstarfi við Íslensku landhelgisgæsluna. Össur Kristinsson, stofnandi Össurar hf., stofnaði Rafnar ehf. árið 2005 til að þróa og hanna ÖK Hull skrokkinn. Framleiðsla báta undir merkjum Rafnars fer í dag fram á Íslandi, Grikklandi, Bretlandi og Tyrklandi. 

Framleiðsla Rafnar bátar erlendis er gert í gegnum sérleyfissamninga undir merkjum Rafnar Maritime byggt á einkaleyfisvarinni hönnun Össurar. 

Stikkorð: Rafnar