Dr. Ragnar Árnason, prófessor við Háskóla Íslands, er formaður ráðgjafaráðs sem Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra skipaði í dag.

Hlutverk ráðsins er að veita ráðherra ráðgjöf og aðstoð við verkefni á sviði efnahagsmála og fjármála hins opinbera, og liðsinna ráðherra og ráðuneyti hans við stefnumörkun á þeim sviðum.

Ráðið verður ráðherra til aðstoðar við greiningu, mat á horfum og stefnumörkun í efnahagsmálum og við mótun ríkisfjármálastefnu til skemmri og lengri tíma, með áherslu á tekjuöflun og útgjaldaþróun. Ráðið er skipað til eins árs og tekur skipan þess gildi í dag.

Auk Ragnars eru í ráðgjafaráðinu þau dr. Þráinn Eggertsson, prófessor við Háskóla Íslands, Orri Hauksson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins og Guðrún Inga Ingólfsdóttir, hagfræðingur. Með ráðinu starfar Svanhildur Hólm Valsdóttir, aðstoðarmaður fjármála- og efnahagsráðherra.

Ráðið hefur heimild til að afla sér frekari sérfræðiaðstoðar í samráði við ráðuneytið. Þá mun ráðgjafaráðið starfa náið með starfsmönnum fjármála- og efnahagsráðuneytisins og ráðuneytið veitir hópnum þá aðstoð sem því er unnt.