Ragnhildur Geirsdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri Rekstrar- og upplýsingatæknisviðs hjá Landsbankanum og tekur strax til starfa.

Þetta svið bankans var sett á laggirnar samhliða viðamiklum skipulagsbreytingum í Landsbankanum í lok september. Undir það heyrir rekstur, viðhald og þróun á öllum tölvu- og upplýsingakerfum bankans, rekstur og umsjón með fasteignum og lána- og viðskiptaumsjón auk þess að sjá um fullnustueignir bankans. Á sviðinu starfa um 350 manns. Ragnhildur mun sömuleiðis stýra hagræðingarverkefnum sem ganga þvert á bankann og eru hluti af helstu áherslum í starfsemi hans til nánustu framtíðar.

Ragnhildur hefur komið víða við. Hún var forstjóri Promens frá árinu 2005 til 2011 og var í forystusveit Icelandair til margra ára, síðast sem forstjóri árið 2005. Ragnhildur hefur setið í stjórnum fjölmargra félaga, til að mynda Landsbréfa hf., Skeljungs hf., Horns Fjárfestingafélags hf., Icelandair Group, Kauphallarinnar á Íslandi og margra fleiri. Á sama tíma og Ragnhildur hefur störf hjá Landsbankanum hættir hún í þeim stjórnum sem hún á sæti í.

Fram kemur í tilkynningu frá Landsbankanum að 65 manns hafi sótt um starfið, 52 karlar og 13 konur. Þá kemur sömuleiðis fram að framkvæmdastjórar Landsbankans eru sjö, fjórar konur og þrír karlar.

Ragnhildur er vélaverkfræðingur frá Háskóla Íslands og lauk framhaldsnámi í iðnaðarverkfræði og viðskiptafræði frá University of Wisconsin í Madison í Bandaríkjunum. Hún hefur ennfremur stundað kennslu við bæði Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík. Maki Ragnhildar er Ágúst Þorbjörnsson, hagverkfræðingur og rekstrarráðgjafi og eiga þau saman tvö börn.