Rakel Sveinsdóttir, fyrrum framkvæmdastjóri Creditinfo á Íslandi og varamaður í stjórn Creditinfo Group, hefur látið af störfum fyrir félagið.

Á heimasíðu Creditinfo kemur fram að Rakel starfaði fyrst sem framkvæmdastjóri Fjölmiðlavaktarinnar frá 2005 en leiddi síðar sameiningu Lánstrausts og Fjölmiðlavaktarinnar áramótin 2007/2008 og varð framkvæmdastjóri Creditinfo á Íslandi. Því starfi sagði hún lausu fyrir um ári síðan og hætti sem framkvæmdastjóri þann 1. febrúar sl.

Fjárfestingum slegið á frest

Í fréttinni kemur fram að við þessi starfslok tóku við verkefni fyrir Creditinfo Group þar sem skoðaðar voru fjárfestingar á sviði rannsókna og greininga. Eftir nokkrar umleitanir á þeirri starfsgrein hefur nú verið ákveðið að fresta slíkum hugmyndum ótímabundið.

Rakel Sveinsdóttir
Rakel Sveinsdóttir
© Haraldur Jónasson (VB MYND/HARI)
„Þetta hefur verið viðburðarríkur og góður tími og forréttindi að vinna við fyrirtæki sem nær að vaxa um meir en 100% á skömmum tíma. Varkárni tryggði félaginu gott gengi í gegnum bankahrunið og í ljósi þeirrar stöðnunar sem enn einkennir íslenskt atvinnulíf erum við ekki að sjá að stórar fjárfestingar séu vænlegar í augnablikinu. Ég kveð því félagið með góðum hug og hlakka til að takast á við nýjar áskoranir hverjar sem þær verða“ ef haft eftir Rakel á heimasíðu Creditinfo.

Rakel starfaði áður lengst af hjá Morgunblaðinu og síðar Stöð 2, varð síðan framkvæmdastjóri sameinaðs Leikfélags Íslands og rak síðar talsetningafyrirtækið Hljóðsetningu sem nú er í eigu Senu.

Rakel hefur undanfarið ár tekið þátt í  umbótastarfi í íslensku viðskiptalífi, hvort sem er aukinni hlutdeild kvenna í atvinnulífinu eða góðum stjórnarháttum. Hún segir að enginn þurfi að efast um að hún haldi því starfi áfram.

Á heimasíðunni þakkar Creditinfo Group Rakel góð störf á liðnum árum.