Breska bensínþambandi stöðutáknið Range Rover kann innan tíðar að vera fáanlegt sem rafmagnsbíll. Svo furðulegt sem þetta kann að hljóma þá hefur fyrirtækið Liberty Electric Cars í Oxford nú lokið við að breyta einum 4x4 Range Rover í Liberty E-Range rafmagnsbíl. Segja forsvarsmenn fyrirtækisins að rafmagns Range Roverinn verði komin í sölu fyrir árslok og kosti 150.000 pund (um 28,3 milljónir króna). Þá er fyrirtækið einnig að vinna að breytingum á öðrum lúxus jeppa og líka fjölnotabíl.

Sjö sekúndur í hundraðið

Greint er frá þessu á vefsíðu breska blaðsins Telegraph og segja forsvarsmenn fyrirtækisins að rafbíllinn E-Range geti náð 85 mílna hámarkshraða á klukkustund (um 137 kílómetrum) og sé um 7 sekúndur að ná rétt tæplega 100 kílómetra hraða (0-60mph). Þá á hann að komast 200 mílur eða um 322 kílómetra á einni hleðslu. LEC rafgeymapakkinn með sín 75 kw er sá stærsti sem hingað til hefur verið settur í rafmagnsbíl. Með nýrri tækni vega rafhlöðurnar samt helmingi minna en margar aðrar sem settar hafa verið í rafbíla. Þá þykja það mikil tíðindi að rafhlöðurnar eiga að endast í 13 ár eða í 300.000 mílna akstur (um 483.000 kílómetra) sem er það mesta sem náðst hefur í rafbílum hingað til.

Einn mótor á hvert hjól

Bíllinn er knúinn áfram af fjórum rafmótorum, einum á hverju hjóli. Virka mótorarnir líka sem rafalar og hlaða rafgeymana þegar bremsað er. Orkan er fengin frá tveim Lithium Polymer geymasamstæðum sem komið er fyrir undirhúddinu í stað sprengihreyfilsins og eru einnig fjórar rafgeymasamstæður undir bílnum.