*

mánudagur, 16. maí 2022
Innlent 20. janúar 2021 09:39

Rannsaka stöðu kynja á vinnustöðum

Árlega verða lagðar spurningar fyrir starfsfólk í um 200 fyrirtækjum sem eiga aðild að Viðskiptaráði.

Empower, Viðskiptaráð, Gallup og Háskóli Íslands kynntu í dag samstarfsverkefnið „Kynin og vinnustaðurinn".
Ólafur Már Svavarsson

Empower, Viðskiptaráð, Gallup og Háskóli Íslands kynntu í dag samstarfsverkefnið „Kynin og vinnustaðurinn". Í tilkynningu um samstarfsverkefnið segir að árlega verði gerð könnun á stöðu, upplifun og líðan starfsfólks í fyrirtækjum á Íslandi þar sem sérstaklega verði horft til þess hvort greina megi mun eftir kyni.

Lagðar verða spurningar fyrir starfsfólk í um 200 fyrirtækjum sem eiga aðild að Viðskiptaráði. Einnig verður staða kynjanna í stjórnunarlögum fyrirtækjanna tekin saman til þess að miðla því hvort og þá hvernig halli á eftir kynjum.

Með niðurstöðum könnunarinnar verður hægt að fá vísbendingu um það hvort kyn skipti máli í menningu og þá með hvaða hætti ójafnrétti kynja birtist. Með betri upplýsingum og vel skilgreindum viðmiðum eru meiri líkur á því að stjórnendur geti metið hvort ástæða sé til að grípa til aðgerða til að bæta stöðu kynjanna innan síns fyrirtækis. Niðurstöðurnar ættu því að nýtast öllu atvinnulífinu og samstarfaðilar vonast til þess að verkefnið verði hreyfiafl til jákvæðrar þróunar í jafnréttismálum.

Niðurstöðurnar verða kynntar á opnum fundi í maí og með kynningarátaki en verða aðgengilegar öllum eftir fundinn.

Þórey Vilhjálmsdóttir Proppé, stofnandi og meðeigandi Empower, segir í tilkynningunni mikilvægt að til staðar séu upplýsingar um líðan og upplifun kynjanna á vinnustöðum og það sé kannað árlega. „Með því móti geta stjórnendur fylgst með þróun og gripið til aðgerða þegar þörf er á og unnið markvisst gegn ómeðvituðum kynbundnum fordómum í fyrirtækjamenningu," segir hún.

Svanhildur Hólm Valsdóttir, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, tekur í sama streng og segir það skipta máli að umræða um stöðu kynjanna í stjórnendalögum sé studd gögnum. „Þannig er raunverulega hægt að setja fram mælanleg markmið, meta breytingar og grípa til aðgerða í samræmi við aðstæður. Þessi könnun mun skapa betri umræðugrundvöll fyrir leiðina fram á við," segir hún.

Ólafur Elínarson, sviðsstjóri markaðsrannsókna hjá Gallup segir mikilvægt að kanna og fylgjast með hvernig staðan er að þróast. „Það er ekki sjálfgefið að réttindi og jöfnuður aukist alltaf eins dæmin sýna um heim allan. Verkefnið er hluti af því að heyra raddir fólks á vinnumarkaði og kortleggja stöðuna sem getur stuðlað að auknum jöfnuði," segir hann.

„Þekking og yfirsýn er forsenda fyrir breytingum í atvinnulífinu og þar eru stjórnendur í lykilhlutverki. Traust samstarf um rannsóknir og miðlun þekkingar á þessu sviði gefa okkur forskot til framþróunar og jöfnuðar," segir Þorgerður J. Einarsdóttir, prófessor í kynjafræði við Háskóla Íslands, að lokum.