Betur færi á því ef rannsókn skattalagabrota yrði alfarið færð til lögreglu í stað þess að færa Skattrannsóknarstjóra (SRS) undir Skattinn. Þetta kemur fram í umsögn KPMG við lagafrumvarp um breytingu á rannsókn og saksókn í skattalagabrotum.

Frumvarpið felur í sér viðbrögð við dómum frá Mannréttindadómstól Evrópu þar sem íslenska ríkið hefur verið dæmt brotlegt við ákvæði sáttmálans er banna tvöfalda refsingu eða málsmeðferð í sakamálum. Lagt er til að embætti SRS verði lagt niður í núverandi mynd og starfsemin færð undir Skattinn.

Að mati KPMG er sú breyting ekki líkleg til að breyta framkvæmdinni að miklu enda virðist „oft á tíðum hendingu háð“ hvort rannsókn endi hjá Skattinum eða sem sakamál. Betur færi á því ef lögregla, héraðssaksóknari og Skatturinn myndu skipta starfsmönnum SRS milli sín. Þá séu boðaðar endursendingarheimildir frumvarpsins ekki til þess fallnar að stytta málsmeðferðartíma og álitamál sé hvernig skuli farið með rannsóknir sem þegar séu hafnar