Að sögn Jónasar Friðriks Jónssonar, forstjóra Fjármálaeftirlitsins, hefur eftirlitið ákveðið að kalla eftir upplýsingum um hvort verið sé að dreifa með skipulegum hætti neikvæðum orðrómi um íslenska fjármálakerfið til að hagnast á því.

Aðspurður sagði Jónas að eftirlitið ákveðið að skoða þetta með víðum hætti og því ekki bundið sig við aðferðina sem slíka.

Vegna ásakanna um að þetta framferði hafi hafist í kjölfar heimsóknar nokkurra starfsmanna bandaríska bankans Bear Stearns þá staðfesti Jónas að þeir hefðu hitt menn á vegum bankans í janúar síðastliðnum. Hann sagðist þó ekkert geta sagt til um á þessari stundu hvort rannsóknin nú tengdist þeirri heimsókn.

Undanfarna viku hefur írska fjármálaeftirlitið unnið að skoðun á hliðstæðum tengslum skortsölu og neikvæðra frétta. Jónas sagðist ekki þekkja þeirra rannsókn í smáatriðum en sagði að hún virtist vera með svipuðum hætti.

„Við erum á miklu frumstigi þessarar rannsóknar og eigum eftir að meta þær vísbendingar sem við höfum. Það er ekki einfallt mál að fara af stað með svona rannsókn og hún getur teygt sig til fleiri landa. Við eigum því enn eftir að meta við hverja við tölum,” sagði Jónas.

Nánar verður fjallað um málið í Viðskiptablaðinu á morgun.

Áskrifendur geta frá klukkan 21:00 í kvöld lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .