Sérstakur saksóknari felldi í dag niður rannsókn í máli gegn útgerðarfélaginu Samherja, að því er sagði í útvarpsfréttum Ríkisútvarpsins í kvöld.

Gerð var húsleit í höfuðstöðvum Samherja fyrir um þremur og hálfu ári vegna gruns um brot gegn lögum um gjaldeyrismál. Var húsleitin gerð á vegum gjaldeyriseftirlits Seðlabankans með aðstoð sérstaks saksóknara.

Í úrskurði héraðsdóms frá 15. maí 2012 voru útreikningar Seðlabankans, sem húsleitin byggði m.a. á, gagnrýndir og sagði í úrskurðinum að aðferðin sem notuð var hafi falið í sér „veikleika í röksemdafærslu [Seðlabankans] við upphaf rannsóknarinnar“.