Rannsóknarnefnd Alþingis hefur sent  tólf einstaklingum bréf þar sem þeim er veitt færi á að koma að sjónarmiðum sínum að því er kemur fram í  frétt á heimasíðu embættisins. Þau atriði sem nefndin hefur þannig veitt mönnum færi á að tjá sig um lúta að fáum en mikilsverðum meginatriðum í aðdragandanum að falli bankanna. Allir hafa þessir einstaklingar, sem veitt er færi á að koma þannig að viðhorfum sínum, áður komið í skýrslutöku og þar hafa þeir áður verið spurðir út í flest þessara atriða og lýst þar viðhorfum sínum segir í fréttinni.

Á grundvelli 1. mgr. 16. gr. laga nr. 142/2008 hefur rannsóknarnefnd Alþingis ákveðið að gefa hvorki upp nöfn þeirra tólf einstaklinga sem fengið hafa bréfin né upplýsa um efni þeirra umfram þau almennu atriði sem að framan greinir. Í báðum tilfellum er um að ræða upplýsingar sem koma munu fram með skýrslu nefndarinnar til Alþingis.

Samkvæmt 1. mgr. skal rannsóknarnefnd Alþingis einnig leggja mat á hverjir beri að hennar mati ábyrgð á mögulegum mistökum og hverjir kunni að hafa sýnt af sér vanrækslu í starfi við framkvæmd laga og reglna um fjármálamarkaðinn og eftirlit með honum og þá innan þess ramma sem starfi rannsóknarnefndarinnar er markaður í lögum.