Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis kemur fram að Fons eignarhaldsfélags í meirihlutaeigu Pálma Haraldssonar, hafi ítrekað „komið til bjargar“ Baugi og tengdum félögum með því að losa þau við fjárfestingar þegar Baugur þurftu á því að halda.

Alls námu áhættuskuldbindingar vegna Fons og tengdra félaga þess 23,9 milljörðum króna við bankahrun í október 2008.

Á meðal helstu fjárfestinga félagsins voru hlutir í Stoðum/FL Group, Northern Travel Holding (eignarhaldsfélagi Sterling og Iceland Express) og Securitas.

Í skýrslunni segir að „Pálmi Haraldsson var viðskiptafélagi Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og tók virkan þátt í mörgum af helstu fjárfestingum Baugs Group og tengdra félaga.“  Jón Ásgeir var sem kunnugt aðaleigandi Baugs.

Lán til Fons voru framan af mest hjá Landsbanka Íslands en fyrirgreiðsla til félagsins frá Glitni jókst þó mest, um 18,8 milljarða króna frá byrjun árs 2007 og fram að hruni. Í skýrslunni segir að „sú aukning kemur þó ekki til fyrr en eftir mitt ár 2007 þegar Stoðir, Baugur og tengdir aðilar eru orðnir meirihlutaeigendur að Glitni.“

Ennfremur segir þar að „við skoðun og yfirferð á afgreiðslu lánamála til Fons er einkum tvennt sem vekur athygli, annars vegar háar fjárhæðir ótryggðra lána og hins vegar hversu viljugt félagið var að „koma til bjargar“ hinum ýsmu aðilum og losa þá við tilteknar fjárfestingar tímabundið. Þeir aðilar voru allir tengdir Baugi eða tengdum félögum“.