Nefnd á vegum innanríkisráðherra, sem hafði það hlutverk að fjalla um skipulag og tilhögun rannsókna og saksóknar í efnahagsbrotamálum, leggur til að rannsóknir skattamála verði að öllu leyti skilgreindar sem sakamálarannsóknir. Þetta myndi þýða að sömu þvingunarúrræði yrðu heimiluð við rannsókn skattalagabrota og við aðrar sakamálarannsóknir.

Nefndin leggur til þær lágmarksbreytingar á meðferð skattalagabrotamála að frekari samvinna og samráð skattrannsóknarstjóra og efnahagsbrotastofnunar verði lögbundin þannig að skattrannsóknarstjóri fullrannsaki skattalagabrot en sendi þau til ákærumeðferðar til efnahagsbrotastofnunar.

Nefndin leggur til að þau verkefni varðandi rannsókn skattamála sem teljast ákæruvaldsákvarðanir verði teknar af saksóknara við nýja efnahagsbrotastofnun sem yrði stofnuð, og verkefni sérstaks saksóknara myndi renna inn í, og sá saksóknari komi að greiningu sakarefna, ákvörðunum um þvingunarúrræði, niðurfellingu rannsókna og þess háttar. Í tillögunni fellst einnig að lögreglumenn hjá efnahagsbrotastofnun aðstoði við rannsókn skattamála, þ.m.t. húsleitir og önnur þvingunarúrræði svo og skýrslutökur.