Hlutabréfamarkaðir lækkuðu í Evrópu í dag. Áhyggjur vegna síhækkandi olíuverðs og afkomuviðvaranir frá farsímaframleiðandanum Sony Ericsson og smásölukeðjunni Carrefour höfðu slæm áhrif á fjárfesta.

Samkvæmt frétt Reuters hefur FTSE Eurofirst 300-vísitalan ekki verið lægri síðan síðla árs 2005, en vísitalan tekur til gengis hlutabréfa 300 félaga á evrópskum mörkuðum. Vísitalan lækkaði um 0,4% í dag og 2,5% í þessari viku.

FTSE 100 stóð nánast í stað í viðskiptum dagsins, sem og AEX í Amsterdam.

Þýska DAX-vísitalan lækkaði um 0,6% og franska CAC-vísitalan lækkaði litlu meira, eða um 0,65%.

Í Kaupmannahöfn lækkaði OMXC20 um 1,1%, og norska OBX-vísitalan lækkaði um 0,7%.