Evrópskir hlutabréfamarkaðir opnuðu rauðir í morgun, sem rekja má til dreifingar ómíkron-afbrigðis kórónuveirunnar. Stoxx Europe 600 vísitalan lækkaði um 2,5% í morgun en hlutabréf bílaframleiðenda, ferðaþjónustufyrirtækja og framleiðenda verslunarvara eru nú undir þrýstingi.

Íslenska kauphöllin opnaði einnig rauð og úrvalsvísitalan hefur lækkað um tæplega 2% í fyrstu viðskiptum dagsins. Flugfélögin Icelandair og Play leiða lækkanir en það fyrrnefnda hefur lækkað um meira en 4% þegar fréttin er skrifuð.

Smittölur hafa hækkað nokkuð að undanförnu með tilkomu ómíkron-afbrigðisins og víða er rætt um að setja á samkomubönn til að bregðast við ástandinu. Holland varð í gær fyrsta Evrópuþjóðin til að tilkynna um útgöngubann vegna núverandi bylgju og munu þær ráðstafanir vara þar til um miðjan janúarmánuð hið minnsta. Sajid Javid, heilbrigðisráðherra Bretlands, neitaði að útiloka hertari aðgerðir fyrir jól í kjölfar þess að ráðgjafar bresku ríkisstjórnarinnar lögðu áherslu á takmarkanir til að draga úr fjölgun smita.

Evrópska hlutabréfavísitalan hefur nú lækkað þrjár vikur í röð eftir að hafa náð hæstu háðum í lok nóvember. Ómíkron-afbrigðið er líklegt til að hafa meiri áhrif á evrópska markaðinn heldur en þann bandaríska vegna þjónustudrifinna hagkerfa og lengd útgöngubanna, að sögn greinanda sem Bloomberg ræddi við.