Hugsanlegt er að áfengislög hafi verið brotin með sölu matarrauðvíns í Nettó á Egilsstöðum. Lögreglan á staðnum rannsakar málið, að því er fram kemur i Austurglugganum. Verslunarstjórinn segir að vínið hafi áður verið fjarlægt tímabundið úr íslenskum matvöruverslunum en ekki reynst innistæða fyrir að halda því þaðan.

„Við erum að skoða þetta mál. Þetta er spurning um brot á áfengislögum," segir Óskar Bjartmarz, yfirlögregluþjónn í Seyðisfjarðarumdæmi, í samtali við Austurgluggann . Matarrauðvínið inniheldur 11% vínanda og er selt sem bökunarvara. „Það kom ábending um að þetta væri til sölu og við fórum og fengum þetta afhent," segir Óskar.

Heiðar Róbert Birnuson, verslunarstjóri í Nettó á Egilsstöðum, segir við Austurgluggann að vörunni hafi verið kippt úr sölu um leið og lögreglan gerði athugasemdina í morgun.