Raungengi krónu í maí lækkaði um tæplega 2% frá fyrri mánuði og hefur nú ekki verið lægra  síðan það náði sögulegu lágmarki í nóvember síðastliðnum.

Þá var vísitala raungengis 64 stig en er nú 68,2 stig samkvæmt gögnum Seðlabanka Íslands sem birt voru í fyrradag.

Þetta kemur fram í Morgunkorni Íslandsbanka en vísitalan byggir á nafngengi krónu og hlutfallslegu verðlagi á Íslandi og í viðskiptalöndum okkar.

Í Morgunkorni kemur fram að raungengi krónunnar er nú 30% undir langtímameðaltali og um það bil 27% frá jafnvægisgengi eða því raungengi sem samræmist jafnvægi í utanríkisviðskiptum sé miðað við meðaltal raungengis á þeim tímabilum sem jafnvægi eða afgangur hefur verið á  vöruskiptum við útlönd.

Fram kemur að raungengi krónunnar er nú lægra en áður hefur sést á þessu ári en í upphafi árs fór raungengið hækkandi á nýjan leik eftir skarpa dýfu í kjölfar bankahrunsins vegna styrkingar í nafngengi krónunnar. Greining Íslandsbanka segir styrkinguna hins vegar hafa gengið til baka eins og kunnugt er og er gengi krónunnar nú á svipuðum slóðum og það var eftir hrunið í haust og raungengið að sama skapi nálægt því sögulega lágmarki sem var náð í kjölfar bankahrunsins.

Þá segir greiningardeildin að afleiðingarnar af veikri krónu feli í sér að kaupmáttur landsmanna minnkar en kaupmáttur útlendinga hér á landi eykst eins og gefur að skilja, sem ætti að gefa ferðaþjónustufyrirtækjum og verslunum góða von.

Sjá nánar í Morgunkorni.