Raungengi krónunnar hækkaði um 3,3% á milli mánaða í ágúst. Þetta er fimmti mánuðurinn í röð sem gengið hækkar.

Fram kemur í Morgunkorni Greiningar Íslandsbanka að þessa miklu hækkun megi að miklu leyti rekja til hækkunar á nafngengi krónunnar um 3,7% á milli júlí og ágúst m.v. vísitölu meðalgengis.

Í Morgunkorninu segir m.a. að ljóst sé að verðbólga var nokkuð minni hér á landi en í helstu viðskiptalöndum í ágúst og hafi það dregið aðeins niður áhrifin af nafngengishækkuninni á raungengið á þessu tímabili.

Þá segir í Morgunkorninu:

„M.v. vísitölu neysluverðs þá lækkaði verðlag hér á landi um tæp 0,2% í ágúst frá fyrri mánuði, sem er óvanalegt þar sem útsölulok hafa jafnan töluverð áhrif á ágústmælingu vísitölunnar, og hafa gjarnan verið einn helsti drifkraftur hækkunar á vísitölunni í mánuðinum. Ljóst er hins vegar að sú mikla gengishækkun sem hafði átt sér stað vikurnar fyrir mælingu Hagstofunnar hefur sett sitt mark á vísitöluna að þessu sinni.“