Samkvæmt nýjum tölum frá Seðlabanka Íslands hækkaði raungengi launa um 11,3% frá síðasta ársfjórðungi 2015 til fyrsta ársfjórðungs 2016. Alls hækkaði raungengi launa því um 26,61% á milli ára.

Raungengi launa tekur mið af launastigi hérlendis miðað við launastig erlendis og nafngengi gagnvart erlendum gjaldmiðlum. Launahækkun hérlendis umfram erlendar launahækkanir sem og styrking á nafngengi krónunnar stuðlar því að hærra raungengi launa, sem jafnframt getur veikt alþjóðlega samkeppnisstöðu.

Raungengi launa hefur ekki verið jafn hátt frá öðrum ársfjórðungi 2008, en lægst var það árið 2009. Frá þeim tíma hefur raungengi launa hækkað um 85,4% en raungengi verðlags hefur hækkað um 36,3% á sama tímabili.