Kaupsamningar og afsöl með atvinnuhúsnæði á Íslandi voru 144 talsins í desember og er það 10,7% aukning frá sama mánuði árið 2011. Í Morgunkorni Greiningar Íslandsbanka segir að aukningin sé í takti við það sem verið hefur undanfarna mánuði. Í heild voru gerðir 1.406 samningar með atvinnuhúsnæði á landinu öllu á síðastliðnu ári samanborið við 1.234 á árinu 2011 og er aukningin milli ára 13,9%. Er þetta annað árið í röð þar sem samningum með atvinnuhúsnæði fjölgaði, en þeim fjölgaði um 14,8% á milli áranna 2010 og 2011 en markaðurinn náði botni árið 2010 í kjölfar hrunsins.

Samhliða þessu segir í Morgunkorninu að svo virðist sem raunverð atvinnuhúsnæðis sé farið að hækka að nýju eftir að hafa náð lágmarki undir lok árs 2011. „Óvissa í mælingum er samt mikil vegna fárra og ósamleitra mælinga. En samkvæmt tölum sem Seðlabankinn tekur saman og birti nýverið var verð á atvinnuhúsnæði 23% hærra á þriðja ársfjórðungi síðastliðins árs en á sama tímabili árið áður en þá hafði raunverð atvinnuhúsnæðis ekki verið lægra frá hruni bankakerfisins 2008. Þrátt fyrir hækkunina var raunverðið um 50% lægra en það var þegar það stóð sem hæðst í aðdraganda hrunsins.“

Reikna má með framhaldi á þessari þróun

Segir í Morgunkorninu að eftir því sem hagkerfið tekur við sér megi reikna með því að bæði muni velta fara vaxandi á markaði með atvinnuhúsnæði og raunverð þess hækki frekar. Greiningin spáir því að innlend eftirspurn fari vaxandi á næstunni og ætti það að kalla á aukna eftirspurn eftir verslunarhúsnæði. Þá sé viðbúið að eftirspurn eftir iðnaðarhúsnæði sem og sérhæfðu húsnæði aukist einnig en velta með slíkt húsnæði hefur færst í aukana undanfarið.