Hagfræðideild Landsbanka Íslands greinir frá því í nýrri hagspá sinni að undanskildum húsnæðiskostnaði hefur ríkt verðhjöðnun í hagkerfinu frá því um mitt ár 2016. Vísitala neysluverðs án húsnæðis í maímánuði var þannig um 2,6% lægri en í maí 2016, þannig að allar nafnverðshækkanir á húsnæði síðasta árið koma nú fram sem meiri raunverðshækkun sem nemur þeirri tölu.

Raunverð fasteigna hefur þannig hækkað um u.þ.b. 26,8% á einu ári frá maí 2016 til maí 2017. Raunverð fasteigna komst hæst í október 2007 en féll síðan mikið eftir það. Nú í maí er raunverðið komið 3,2% yfir hæstu stöðu á árinu 2007.

Eins og Viðskiptablaðið greindi frá í gær hækkaði fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu um 1,8% milli mánaða í maí. Samkvæmt tölum Þjóðskrár nemur heildarhækkunin 23,5%.

Segir hagfræðideildin að lokum: „Mikil kaupmáttaraukning ráðstöfunartekna var lengi vel helsti drifkraftur hækkana fasteignaverðs. Nokkuð hefur dregið úr kaupmáttaraukningu og því er það einkum misvægi á milli framboðs og eftirspurnar á fasteignum sem heldur spennunni á markaðnum uppi. Mikið hefur verið rætt og ritað um þá stöðu og virðast flestir sammála um að nokkur ár muni líða þar til jafnvægi næst á markaðnum. Eins og margoft hefur verið bent á hér í Hagsjám hefur bygging nýrra íbúða ekki haldið í við þörfina og það ástand því viðhaldið spennu á markaðnum. Það tekur hins vegar langan tíma að auka framboð húsnæðis og því mun þetta spennuástand vara í nokkur misseri enn."