Samkvæmt nýjum tölum Þjóðskrár Íslands hækkaði fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu um 0,5% milli desember og janúar. Verð á fjölbýli hækkaði um 0,6% en verð á sérbýli hækkaði um 0,2%. Þetta kemur fram í nýrri Hagsjá hagfræðideildar Landsbankans.

Í Hagsjánni segir að þegar horft sé yfir 12 mánaða tímabil hafi verð á fjölbýli hækkað um 2,8% og verð sérbýlis um 0,9%. Vegin árshækkun húsnæðisverð í janúar hafi því verið 2,5% sem sé 0,2% meira en í desember.

„Árshækkun vísitölu neysluverðs án húsnæðis mældist 1,6% í janúar og hefur raunverð fasteigna því hækkað horft 12 mánuði aftur í tímann. Þrátt fyrir að verð á húsnæði hafi hækkað tiltölulega lítið sögulega séð á undanförnum misserum hefur raunverðið haldist nokkuð stöðugt og jafnvel farið hækkandi. Þannig var raunverðið nú í janúar 0,9% hærra en það var í janúar 2019, en samsvarandi tala fyrir janúar í fyrra var 2,6% hækkun. Raunverð íbúðarhúsnæðis á höfuðborgarsvæðinu hefur reyndar aldrei verið hærra en nú í janúar.

Raunverð íbúðarhúsnæðis nú í janúar var 11% hærra en það var hæst haustið 2007. Frá því að raunverðið fór lægst eftir hrun, vorið 2010, hefur það hækkað um 82%,“ segir í Hagsjánni.