Hollenska drykkjarvörufyrirtækið Refresco, sem FL Group og aðrir íslenskir fjárfestar eiga meirihluta í, hefur eignast franska fyrirtækið Nuits Saint-Georges Production SAS en félagið er með aðsetur í Dijon héraði í Frakklandi. Refresco hefur því keypt fjögur fyrirtæki á síðustu þremur mánuðum og rúmlega tvöfaldað veltu sína segir í tilkynningu FL Group.

FL Group, Vífilfell og Kaupþing eignuðust meirihluta í Refresco í apríl á síðasta ári. Markmiðið var strax sett á stækkun með samrunum og yfirtökum bæði á þeim mörkuðum þar sem fyrirtækið var með fótfestu á en einnig á nýjum mörkuðum. Á undanförunum tíu mánuðum hafa fjárfestarnir unnið með Refresco við útfærslu þessarar stefnu og á síðustu þremur mánuðum hefur Refresco eignast Kentpol í Póllandi, Histogram í Bretlandi og Sun Beverages Company í Frakklandi, Belgíu og Hollandi auk framangreindrar fjárfestingar í Nuits Saint-Georges.

Hannes Smárason, forstjóri FL Group, segir þetta sýna hversu vel FL Group hefur stutt við bakið á Refresco. ,,Við höfum í samvinnu við framkvæmdastjórn fyrirtækisins mótað sameiginlegar hugmyndir um markmið sem byggjast á ytri og innri vexti. Stefnan er sú að Refresco verði eitt öflugsta fyrirtæki sinnar tegundar í Evrópu og þessi síðustu kaup eru mikilsvert skref á þeirri leið," segir Hannes í tilkynningu.