Rússland hefur lýst því yfir að refsiaðgerðir Bandaríkjanna gegn tveimur rússneskum vopnaframleiðendum séu tilhæfulausar og ólöglegar, en fyrirtækin höfðu selt vopn til Íran, segir í frétt Financial Times.

Á föstudaginn sakaði utanríkismálaráðuneyti Bandaríkjanna sjö fyrirtæki um að brjóta gegn sáttmála sem takmarkar útbreiðslu gereyðingarvopna til Íran. Tvö fyrirtækjanna voru frá Indlandi, tvö frá Norður-Kóreu, eitt frá Kúbu og rússnesku fyrirtækin tvö, Sukhoi og Rosoboronexport. Refsiaðgerðir Bandaríkjanna segja til um að engin fyrirtækjanna geti átt viðskipti við bandarísk fyrirtæki í tvö ár.

Utanríkisráðherra Rússlands sagði aðgerðirnar vera algerlega óásættanlegar og að þær stefndu samstarfi þjóðanna í hættu. Varnarmálaráðherra Rússlands gaf til kynna að Bandaríkin væru með þessu að svara fyrir sölu Rússa á herflugvélum til Hugo Chávez, forseta Venesúela.

Einnig er talið líklegt að refsiaðgerðirnar hafi áhrif á viðskipti fyrirtækja. Bandaríski flugvélaframleiðandinn Boeing hefur unnið með öðru fyrirtækjanna að þróun nýrrar farþegaþotu og á einnig viðskipti við títaníumframleiðandann VSMPO-Avisma, en Rosoboronexport hyggur á yfirtöku þess fyrirtækis. Rosoboronexport á einnig Avtovaz sem framleiðir Lada bifreiðarnar og á í samstarfi við bandaríska framleiðandann General Motors, en enn er óljóst hvaða áhrif refsiaðgerðirnar hafa á dótturfyrirtæki vopnaframleiðandanna, segir í fréttinni.

Talsmenn fyrirtækjanna segjast aðeins hafa selt hernaðarvörur sem notaðar eru til varnar og hafi því ekki rofið sáttmálann, og benda á að fjölmargar þjóðir, meðal annars NATO ríki, hafi selt sambærilegar vörur til Íran.