Reginn hf., Hagar hf., Klasi ehf. og KLS eignarhaldsfélag ehf., núverandi eigandi Klasa, undirrituðu í dag viljayfirlýsingu um uppbyggingu og rekstur öflugs fasteignaþróunarfélags. Reginn og Hagar munu ganga í eigendahóp Klasa að undangenginni hlutafjáraukningu í hinu síðastnefnda félagi. Þetta kemur fram í Kauphallartilkynningu.

Samkvæmt viljayfirlýsingunni er áætlað að eignarhlutur hvers eiganda um sig, þ.e. Regins, Haga og KLS eignarhaldsfélags verði um 1/3 af útgefnu hlutafé. Reginn og Hagar munu greiða fyrir eignarhlut sinn með þróunareignum. Til þróunareigna Regins teljist lóðir til uppbyggingar, eignir sem eru utan skilgreindra kjarnasvæða félagsins og aðrar eignir sem henta ekki núverandi eignasafni miðað við fyrirliggjandi fjárfestingastefnu.

Samhliða fyrirhugaðri fjárfestingu Regins og Haga í Klasa mun Klasa verða skipt upp þannig að verkefni Klasa sem ekki teljast til þróunarverkefna færast í annað félag utan fyrirhugaðra viðskipta. Viljayfirlýsingin er með fyrirvörum, meðal annars um áreiðanleikakönnun og samþykki Samkeppniseftirlitsins.

Áætluð verðmæti undirliggjandi fjárfestingaeigna Klasa eftir fyrirhuguð viðskipti verða um 15 milljarðar króna og er eiginfjárhlutfall félagsins í upphafi áætlað um 70%.

Klasi þróar þróunareignir Haga og Regins

Klasi er þekkingarfyrirtæki í þróun fasteigna og hefur í yfir 17 ár komið að mörgum viðamiklum fasteignaþróunarverkefnum og framkvæmdaverkefnum.

Eðli og tilgangur fyrirhugaðra viðskipta er að Klasi þrói áfram þær fasteignir og lóðir sem Reginn og Hagar leggja til við kaup á hinu nýja hlutafé. Í tilkynningunni segir að félögin hafi innan eignasafna sinna umfangsmikil og fjölmörg fasteignaþróunarverkefni sem henta betur til þróunar, uppbyggingar og sölu innan sérhæfðs fasteignaþróunarfélags. Þá mun Klasi þróa þau verkefni sem áfram eru í félaginu. Aðilar telja að með þessu náist fram aukin verðmæti þróunareigna með þekkingu Klasa á skipulags- og fasteignaþróun.

Reginn styrki fasteignasafn sitt

Í tilkynningu Regins segir að með fyrirhuguðum viðskiptum skapist ný tækifæri fyrir Reginn til að styrkja fasteignasafn sitt innan nýrra kjarnasvæða, svo sem á fyrirhuguðum uppbyggingarsvæðum á Borgarhöfða og Mjódd, í samræmi við sýn og stefnu félagsins. Þrátt fyrir að fasteignaþróun hafi verið umfangsmikil innan félagsins undanfarin ár er hún ekki hluti af kjarnastarfsemi félagsins. Ráðgjafi Regins í viðskiptunum er Fyrirtækjaráðgjöf Landsbankans.

Reginn er fasteignafélag sem fjárfestir í, leigir út og annast rekstur á atvinnuhúsnæði. Bent er á að Tómas Kristjánsson, stjórnarformaður Regins, er jafnframt annar aðaleigandi Klasa. Fram kemur, að í samræmi við ákvæði laga og starfsreglur stjórnar Regins, hafi Tómas ekki haft aðgang að upplýsingum vegna málsins eða tekið þátt í undirbúningi, meðferð eða ákvörðun þess innan stjórnar Regins.

Hagar einblína á kjarnastarfsemi

Samkvæmt kauphallartilkynningu Haga hefur félafið lagt áherslu á að eignast fasteignir sem tengjast kjarnastarfsemi en auk þess hefur félagið eignast lóðir og fasteignir sem hentugar eru til frekari þróunar.

Hagar hyggjast einblína á kjarnastarfsemi en fasteignaþróun mun hins vegar ekki vera hluti af henni. Undirritun Haga á viljayfirlýsingu þessa er því í samræmi við nýmótaða stefnu félagsins og miðar að því að verðmætum eignum verði komið í farveg hjá aðilum sem hafa sérþekkingu og reynslu af uppbyggingu og þróun fasteigna.

Þá er einnig gert ráð fyrir að þátttaka í uppbyggingu Klasa fasteignaþróunarfélags stuðli að því að markmið og skilyrði í samningum Haga og Olís við Reykjavíkurborg um fækkun bensínstöðva og fyrirhugaða uppbyggingu á þróunarreitum náist fyrr og á hagkvæmari hátt.

Hagar eru samstæða fyrirtækja sem starfar á íslenskum matvöru-, sérvöru- og eldsneytismarkaði. Á meðal eigna Haga sem um ræðir má nefna þróunarreit í Mjódd, þ.e. Álfabakka 7 og Stekkjarbakka 4-6, og á atvinnusvæði Sundahafnar, þ.e. Klettagarða 27. Ráðgjafi Haga í viðskiptunum er Arctica Finance.