Árlegur beinn kostnaður fyrirtækja vegna regluverks hér á landi gæti verið allt að ríflega 70 milljarðar króna. Kom þetta fram í máli Haralds Inga Birgissonar, aðstoðarframkvæmdastjóra Viðskiptaráðs, á fundi Félags löggiltra endurskoðenda um einfaldara regluverk. Fjallaði hann einnig um reynslu Hollendinga af markvissri vinnu við að minnka þennan kostnað.

Hann sagði Hollendinga m.a. hafa náð 25% samdrætti í reglubyrði á fjórum árum og árangurinn skilað sér í 1,7%-3,6% hagvaxtaraukningu.

Síðasta úttekt sem gerð var á þessum kostnaði hér á landi var framkvæmd af Hagfræðistofnun árið 2004 og var niðurstaðan þá að heildarkostnaður vegna opinberra eftirlitsreglna væri rúmir 23,3 milljarðar króna. Ef miðað er við reynslu annarra landa gæti kostnaðurinn verið á bilinu 22 til 71 milljarður króna. Er þá miðað við hlutfall stjórnunarlegs kostnaðar vegna eftirlitsreglna af vergri landsframleiðslu. Heildarmeðaltal slíks kostnaðar sem hlutfall af landsframleiðslu í Evrópusambandsríkjunum er um 2,7% og ef Ísland er á svipuðum slóðum er kostnaðurinn hér um 46 milljarðar.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér .