Tilboð sem Árvakur gerði í fyrra um prentun Fréttablaðsins og hugsanlega fleiri blöðum sem heyra nú undir 365 prentmiðla stendur enn. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins hefur tilboðið nýlega verið ítrekað með óformlegum hætti. Með sama hætti hafa forsvarsmenn fyrirtækjanna haft orðaskipti um málið, en það hefur þó ekki enn leitt til formlegra viðræðna.

Í frétt í Viðskiptablaðinu í morgun kemur fram að áhugi er fyrir því bæði hjá útgefendum Morgunblaðsins, sem og útgefnendum prentmiðla 365, að finna flöt á sameiginlegri prentun og dreifingu þessara fyrirtækja, segja heimildamenn Viðskiptablaðsins.

Gunnar Smári Egilsson, forstjóri 365, segir eðlilegt að Morgunblaðið og Fréttablaðið yrðu á endanum prentuð í sömu prentsmiðju. Vísar hann til þróunar í þá veru í Danmörku sem hófst fyrir mörgum áratugum. -- "Það er vonum seinna að Íslendingar átti sig á því hagræði sem í þessu felst."

Hallgrímur B. Geirsson, framkvæmdastjóri Árvakurs, segir allt opið í þeim efnum. Prentsmiðja Árvakurs geti vel tekið við prentun á prentmiðlum 365 fjölmiðlasamsteypunnar. Líklega þyrfti þó að ráðast i viðbótarfjárfestingu til að sinna slíku verkefni.