*

laugardagur, 31. júlí 2021
Innlent 7. febrúar 2006 12:13

Reiknað kaupverð Senu 3,6 milljarðar

Ritstjórn

Samkvæmt tilkynningu Dagsbrúnar mun félagið greiða fyrir Senu með 1.600 milljónum króna í reiðufé auk hlutabréfa í Dagsbrún að nafnvirði 266,7 milljónir króna. Kaupverð Senu er tengt gengi hlutabréfa í Dagsbrún þar sem aukagreiðsla fellur til verði gengi bréfa Dagsbrúnar undir 7,5. Reiknað kaupverð Senu er því að mati greiningardeildar Íslandsbanka um 3,6 milljarðar króna.

Áðurnefnd aukagreiðsla nemur 400 milljónum króna verði gengi Dagsbrúnar 6 eða lægra en lækkar hlutfallslega frá genginu 6 og upp í 7,5. Áætluð velta Senu eru 2,65-2,85 milljarðar króna og munu kaupin skila sér í 300-350 milljóna króna aukningu á hagnaði fyrir afskriftir á yfirstandandi rekstrarári. Engar vaxtaberandi skuldir fylgja með í kaupunum.

Á sama tíma og uppgjör Dagsbrúnar var birt í gær var tilkynnt um kaup félagsins á Senu sem hefur verið hluti af Degi Group og er stærsta fyrirtæki landsins á afþreyingarmarkaði. Kaupunum fylgir tónlistarútgáfa, umboð fyrir tölvuleiki, tónlist og kvikmyndir auk reksturs bíóhúsa, hljóðvera og tónlist.is.