Reimar Pétursson hæstaréttarlögmaður hefur verið kjörinn formaður Lögmannafélags Íslands, en kjörið fór fram á aðalfundi félagsins sem haldinn var í gær.

Reimar tekur við af Jónasi Guðmundssyni sem gegnt hefur formennsku síðastliðin þrjú ár, en samkvæmt samþykktum félagsins má formaður ekki sitja lengur en þann tíma.

Reimar er einn eigenda Lögmanna Lækjargötu. Hann lauk embættisprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands árið 1998 og hlaut réttindi til málflutnings fyrir héraðsdómi sama ár. Þá hlaut hann LL.M. gráðu frá Columbia háskóla í New York í Bandaríkjunum árið 2003, en ári síðar hlaut hann bæði málflutningsréttindi fyrir Hæstarétti Íslands og í New York ríki.