Lánshæfisfyrirtækið Reitun hefur gefið frá sér nýtt lánshæfismat á Orkuveitu Reykjavíkur. Einkunn Orkuveitunnar er áfram i.A3 en horfunum hefur hins vegar verið breytt úr stöðugum í jákvæðar.

Í mati Reitunar kemur fram að áframhaldandi styrking á fjárhagsstöðu félagsins, trúverðug fjárhagsáætlun ásamt góðum árangri í að ná markmiðum Plansins séu ástæður þess að horfur séu metnar jákvæðar.

Einnig segir að samhliða batnandi fjárhagsstöðu Orkuveitunnar og minni áhættu sýni fjárhagsáætlun fyrirtækisins að áfram sé unnið að því að styrkja lausafjárstöðu og veltufjárhlutfall.

„Lánshæfi Orkuveitunnar ætti að styrkjast samhliða auknu fjárhagslegu svigrúmi,“ segir í matinu.