Rekstrartekjur Orkuveitu Reykjavíkur á öðrum ársfjórðungi námu 10,9 milljörðum króna og drógust lítillega saman frá sama tímabili í fyrra. Rekstrarhagnaður nam 3,1 milljörðum og dróst saman um 30% milli ára, þar sem kostnaður jókst talsvert. Þetta kemur fram í nýbirtu árshlutauppgjöri félagsins.

Mest hækkuðu „annar rekstrarkostnaður“, sem nam 1,7 milljörðum og jókst um 64%, og afskriftir sem námu 2,9 milljörðum og jukust um tæpan fjórðung.

520 milljón króna tap varð af rekstri félagsins á fjórðungnum, samanborið við 3,8 milljarða hagnað í fyrra. Bróðurpart þessa mikla viðsnúnings má rekja til sveiflna á gengi krónunnar gagnvart dollar og heimsmarkaðsverði á áli.

Sveiflurnar eru þó að sögn Ingvars Stefánssonar, fjármálastjóra OR, nánast alfarið bókhaldslegs eðlis, en áhrif þeirra á sjóðstreymi félagsins hverfandi, enda félagið að miklu leyti varið gegn þeim.

Í skýringum við ársreikninginn kemur fram að í skoðun sé að skipta Orku Náttúrunnar upp í tvö félög „vegna óvissu um hvort félagið megi halda áfram með starfrækslugjaldmiðil í bandarískum dollar“.

Ingvar segir ákvörðunina alfarið bókhaldslegs eðlis, uppskipting hefði engin áhrif á starfsemi félagsins. Félaginu yrði þá skipt upp í hluta sem gerðir væru upp í dollurum annarsvegar og krónum hinsvegar, til að reikningarnir gæfu sem réttasta mynd af rekstrinum. Endanleg ákvörðun er hinsvegar í höndum eigenda OR.