IFS greining reikna með að árið 2011 verði betra en árið 2010 hjá HB Granda þar sem ytri aðstæður eru hagstæðar fyrir fyrirtækið. Á fyrri hluta árs hefur loðnuvertíð gengið vel og hafa veiðar á síld, makríl og úthafskarfa gengið vel það sem af er sumri. Á móti þessu kemur að kolmunnakvótinn var afar lítill og olíuverð hærra en á sama tíma í fyrra.

Afkoma HB Granda á fyrri hluta ársins var sérlega góð og batnaði töluvert á milli ára. EBITDA-framlegð á tímabilinu nam 25,2 milljónum evra, þ.e. 33,1% af tekjum samanborið við 31,5% af tekjum árið áður. Tekjur félagsins jukust um 26,3% á milli ára og þar hefur hækkun afurðaverðs mikið um að segja. Samkvæmt tölum IFS hækkaði afurðaverð mælt í erlendri mynt um 6,9% á fyrri árshelmingi samanborið við 0,4% hækkun á sama tíma í fyrra. Jafnframt jókst uppsjávaraflinn um 10 þúsund  tonn samtímis og botnfiskafli hélst óbreyttur.

Gengismunur lækkar verulega á milli ára þar sem skuldir félagsins endurspegla nú uppgjörsmyntina. Hagnaður eftir skatt nam 15,7 milljónum evra á fyrri hluta árs og arðsemi eiginfjár var 10,6% miðað við meðalstöðu þess. Sjóðstreymi var sterkt, eins og á árinu 2010, veltufé frá rekstri var 23 milljónir evra.

Vaxtaberandi skuldir námu 123,4 milljónum evra í lok júní  og sjóðsstaðan var 6,2 milljónir evra. Nettó vaxtaberandi skuldir námu því 117,2 milljónum evra. Hlutfallið vaxtaberandi skuldir/EBITDA var því 2,5x um mitt þetta ár og hafði lækkað frá 2,9x um áramótin. Það telst ásættanlegt í samanburði við rekstrarfélög. Í samanburði við önnur íslensk sjávarútvegsfyrirtæki telst þetta skuldahlutfall lágt. Eigið fé í lok júní nam 153,9 milljónum evra (49,0% eiginfjárhlutfall). HB Grandi hefur greitt út arð samfellt frá 1998 og nam arðgreiðslan á fyrri hluta árins 2 milljónum evra (þ.e. 340 m.kr.). IFS greining telur líklegt að vilji stjórnenda og stærstu eigenda liggi í þá átt að lækka skuldir félagsins enn frekar og auka arðgreiðslur.