Rekstrarkostnaður lífeyrissjóða á Íslandi og í Danmörku er lægstur meðal ríkja Efnahags- og framfarastofnunarinnar OECD ef litið er til kostnaðar í hlutfalli af heildareignum.

„Landssamtök lífeyrissjóða telja nauðsynlegt að koma þessu á framfæri í ljósi fullyrðinga stjórnarmanns í Verslunarmannafélagi Reykjavíkur, Ragnars Þórs Ingólfssonar, um „glórulausan“ rekstrarkostnað lífeyrissjóða á Íslandi. Hann er fastagestur í Silfri Egils, hefur jafnan uppi stór orð um lífeyrissjóði og starfsemi þeirra og umgengst staðreyndir býsna frjálslega á stundum í málflutningi sínum,“segir í tilkynningu frá Landssamtökum lífeyrissjóða.

Segir að nýjustu tölur séu frá 2007. Þá hafi rekstrarkostnaður verið um 0,2% af heildareignum sjóðanna. Hlutfallið í Finnlandi, Þýskalandi og Austurríki var 0,4% en hæst var það í Tékklandi, 1,4%.

„Ragnar Þór gagnrýnir nú rekstrarkostnað sjóðanna harðlega og telur auk þess rétt að sameina alla lífeyrissjóði Íslendinga í einn sjóð, sem væntanlega yrði þá á forræði ríkisins. Það er vissulega sjónarmið út af fyrir sig en hefur tæplega mikinn hljómgrunn í röðum sjóðfélaga innan hins almenna lífeyrissjóðakerfis.

Staðreyndin er sú, og auðveldlega má sannreyna þá fullyrðingu, að víða um heim er bent á íslenska lífeyrissjóðakerfið sem fyrirmynd. Jafnframt er eftir því tekið að kostnaður við rekstur þess er með því minnsta sem þekkist.

  • Tilefni gefst svo hér til að benda á að lífeyrissjóðum hefur fækkað mjög á undanförnum árum. Fyrir um tveimur áratugum voru þeir alls um 90 talsins en nú tekur 31 sjóður við iðgjöldum og fimm þeir stærstu ráða yfir 60% heildareigna lífeyrissjóða landsmanna . Tíu stærstu sjóðirnir ráða yfir um 80% eigna allra lífeyrissjóða.

Lífeyrissjóðum á Íslandi mun fækka enn frekar. Nýlega hafa til dæmis fjórir lífeyrissjóðir sameinast í Söfnunarsjóði lífeyrisréttinda og meðal minnstu sjóðanna, sem nú eru starfandi, eru nokkrir sjóðir sveitarfélaga sem taka ekki við nýjum sjóðfélögum. Þeir munu því sjálfkrafa leggjast af á næstu árum,“ segir í tilkynningu.